Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1409  —  446. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55. 10. júní 1998.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin Hugason og Guðríði Margréti Kristjánsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Ólaf Friðriksson og Atla Má Ingólfsson frá landbúnaðarráðuneyti, Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis og Gísla Jónsson dýralækni fisksjúkdóma á Keldum.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Umhverfisstofnun, landbúnaðarráðuneyti, embætti yfirdýralæknis, Landssambandi smábátaeigenda, Byggðastofnun, fiskeldisnefnd, Landssambandi veiðifélaga, Hafrannsóknastofnuninni og Veiðimálastofnun.
    Í ljósi þeirra umsagna sem nefndinni hafa borist þykir rétt að taka fram að í 12. gr. laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, var kveðið á um það að eldisfiski mætti aðeins slátra með leyfi yfirdýralæknis og samkvæmt þeim skilmálum er hann setti. Eftirlitið samkvæmt lögunum var að öðru leyti hjá nýrri stofnun, Fiskistofu.
    Lögunum var breytt og þau endurútgefin sem lög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, og kemur fram í almennum athugasemdum við frumvarpið að lögin skyldu ekki ná til eftirlits með slátrun eldisfisks þar sem slíkt eftirlit væri á valdsviði embættis yfirdýralæknis en ekki sjávarútvegsráðuneytis. Í athugasemdum við 14. gr. í III. kafla um leyfisveitingar og eftirlit kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi gert athugasemdir við það að leyfi yfirdýralæknis þyrfti til slátrunar eldisfisks og hafi ákvæðið því verið fellt brott. Frá gildistöku laganna hefur því ekki verið skýrt kveðið á um ábyrgð og eftirlit með slátrun eldisfisks í lögum og er frumvarpinu ætlað að taka af öll tvímæli um það.
    Á fundum nefndarinnar og í umsögnum hefur komið fram að sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti hafi átt í viðræðum um verkaskiptingu eftirlitsaðila, þ.e. Fiskistofu og Aðfangaeftirlits, einkum varðandi eftirlit með fiskimjöli sem notað er í fóður en skilin milli ráðuneyta eru ekki nægjanlega skýr. Er stefnt að því að greiða úr því sem fyrst.
    Með tilliti til þeirrar réttaróvissu sem skapaðist þegar mikill fjöldi eldislaxa slapp úr sláturkví seint á síðasta ári telur nefndin nauðsynlegt að ljúka afgreiðslu þessa máls sem fyrst og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Jón Bjarnason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álit þetta.
    Jón Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Jóhann Ársælsson, Kristján L. Möller og Guðlaugur Þór Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. mars 2004.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Einar K. Guðfinnsson.



Magnús Þór Hafsteinsson.


Hjálmar Árnason.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.